EU neytendamerkingar

Í nóvember 2012 tók Evrópusambandið í notkun staðlakerfi, en það er nýtt kerfi til þess að veita neytendum gagnlegar upplýsingar þegar verslað er dekk. Undanfarin ár hafa ódýr dekk verið í umferð sem standast ekki gæðakröfur og er þetta svar ESB til þess að reyna að koma í veg fyrir að léleg dekk séu í umferð. Allir sem selja dekk á Evrópumarkaði þurfa að uppfylla þennan staðal. Þar sem dekkin eru eina snerting bílsins við veginn er það mjög mikilvægt að viðskiptavinir séu upplýstir um gæði dekkjanna.

Staðallinn er að sjálfsögðu hugsaður fyrir fjöldann í Evrópu og margvíslegar gagnrýnisraddir hafa komið upp varðandi takmarkanir hans, en einungis eru þrír þættir mældir, þ.e. núningsmótstaða, bremsun í bleytu og ytri hávaðamengun.

Staðallinn tekur þar af leiðandi ekki á:

  • veggripi, stýringu og hröðun við vetraraðstæður
  • stýringu og hröðun í bleytu
  • veggripi, stýringu og hröðun á þurru yfirborði
  • endingu.

Einkunn varðandi eldsneytiseyðslu og bremsun í bleytu er gefin á skalanum A til G, þar sem A er hæsta einkunn en G lægsta.

Því meira snúningsviðnám því meira eldsneyti notar bílinn. Því hefur snúningsviðnámið áhrif á eldsneytiseyðslu og umhverfið. Miðinn hér til hliðar gefur til kynna eldsneytisnýtingu og losun koldíoxíðs (CO2) í umhverfið.

Það er mikilvægt að veggrip við bremsun á blautu yfirborði sé gott. Dekk sem hafa mjög gott veggrip hafa styttri hemlunartíma þegar keyrt er í rigningu. Hafið í huga að hér er ekki verið að tala um veggrip í hálku eða slabbi, aðeins rigningu.

 

Umferðahljóð fara misvel í fólk og telja margir þau vera til óþæginda. Þessi merking gefur til kynna hversu hljóðlátt dekkið er. Ein hljóðbylgja á myndinni til hliðar merkir að dekkið er einstaklega hljóðlátt og er 3 desíbelum lægra en framtíðarmörk Evrópu* verða. Tvær hljóðbylgjur merkja að hávaðinn sé viðunandi og er innan framtíðarmarka Evrópu. Þrjár hljóðbylgjur merkja að dekkið gefur frá sér meiri hávaða en æskilegt er skv. nýju evrópsku mörkunum.

Athugið! Neytendum skal bent á að merkingarnar geta hjálpað til við samanburð á svipuðum dekkjum, en einnig er augljóst að margvíslegir eiginleikar sem hafa þótt eftirsóknarverðir hér á Íslandi þurfa ekki endilega að fara saman við þá þætti sem gefa háa einkunn skv. EU staðlinum. Til dæmis má þar að nefna að mýkt gúmmís, sem hefur mikil jákvæð áhrif á grip vetrar- og heilsársdekkja hefur neikvæð áhrif á eldsneytiseyðslu, eins þurfa framleiðendur dekkja oft að fórna hæfni til að bremsa í bleytu til að ná griphæfni við vetraraðstæður. 

Nagladekk eru undanþegin í reglugerðinni og hafa því ekki EU merkingu.

* Ný evrópsk mörk verða kynnt árið 2016